• 14 daga skila og skiptifrestur
  •  
  • Frí sending fyrir allar pantanir yfir 7.000 kr.
Karfa

Dynafit Feline SL

 

Dynafit utanvegahlaupaskórnir Feline SL.

Þegar við fengum umboðið fyrir Dynafit og sáum nýju utanvegahlaupaskóna þeirra þá leist okkur strax mjög vel á þá. Við okkar prufur þá fannst okkur þeir þægilegir, með góðan stuðning og dempun. Við ákváðum að leita til aðila sem hefur mikla reynslu af utanvega- / náttúruhlaupum og fá hann til þess að prófa skóna og gefa umsögn um þá. Fyrir valinu varð hann Birkir hjá Arctic Running, sem hefur áralanga reynslu af hlaupum, og veit hvað þarf að hafa í huga þegar kemur að góðum skóm í náttúruhalupin.

Dynafit Feline SL Umsögn
eftir Birki Má Kristinsson.

Hver er Birkir?

Birkir er sjúkraþjálfari og framkvæmdastjóri.  Náttúruhlaupa og Arctic Running. Hann er þjálfari á námskeiðum Náttúruhlaupa og kennir hlaupastíl og fleira tengt hlaupum. Birkir hefur hlaupið reglulega síðan hann var barn. Hann hefur lengi haft áhuga á hlaupaskóm og er sennilega eini karlmaður landsins sem á fleiri skópör en kona sín.

Umsögn. 
Forsvarsfólk netverslunarinnar debe.is hafði samband við mig og bað mig um að skrifa umsögn. Þá hafði ég ekki heyrt um Dynafit Feline skóna. Ég fékk eitt par gefins en tek fram að það hefur ekki áhrif á umsögnina. Ég hef hlaupið um 70 km í skónum við mjög fjölbreyttar aðstæður: fjalllendi, skógarstígum, drullu, mýri, þúfum, snjó, hrauni, lausamöl og grjóti.

Dynafit
Dynafit er reynslumikið og traust merki. Það er þó þekktast fyrir skíðavörur. Fyrir nokkrum árum byrjaði fyrirtækið að framleiða trail skó og fatnað. Þar fylgir það í fótspór fyrirtækja eins og La Sportiva og Scarpa. Það er rökrétt skref því þessi fyrirtæki búa yfir mikilli sérþekkingu sem sjálfsagt nýtist vel. Þau hafa jafnvel möguleika á að nálgast hönnunina frá öðru sjónarhorni en aðrir framleiðendur.

Vörulýsing
Dynafit Feline SL er önnur kynslóð af þessum náttúruhlaupaskó. SL stendur fyrir “super light”. Þó 290 grömm muni seint teljast ofurléttir hlaupaskór, má segja að þeir séu léttir miðað við umfang. Þeir eru með 8 mm hæðarfalli (drop/offset) og skórnir eru með hlutlausa stýringu (neutral). Feline eru með hraðreima (speedlaces). Plaststyrkingu víða að ofan og gúmmí yfir tær. Hælkampar eru stífir og gúmmíband er yfir hælbeinið (heel preloader). Pláss í framfæti er miðlungsmikið og ætti að henta flestum. Stærðir eru í minni kantinum.

Tilfinning
Dynafit höfðu loppuna á snjóhlébarða í huga við hönnun skóarins. Það hefur tekist að einhverju leyti, bæði í útliti og tilfinningu. Þegar ég fyrst fékk skóinn í hendur hafði ég áhyggjur af að hann væri of stífur og umfangsmikill fyrir minn smekk þar sem ég vil hafa þá sveigjanlega til að leyfa náttúrulega fótrúllu. Þessar áhyggjur hurfu um leið og ég byrjaði að hlaupa. Skórnir gefa vel eftir þar sem skiptir máli og því er tilfinningin mjög góð að hlaupa í þeim. Hælbandið (heel preloader) faðmar hælbeinið á þæglilegan hátt og er eitt af sérkennum skóarins. Það, ásamt stífur hælkamp og góðu gripi, eykur stöðugleika sem veitir öryggistilfinningu, sérstaklega í niðurhlaupum í fjalllendi. Dempun er millistíf og góð blanda af þægindum og speglun (responsiveness). Jarðtenging (ground feel) er miðlungsmikil eða nægilega til að fá tilfinningu fyrir undilaginu.

Útlit
Sitt sýnist hverjum hvað útlit varðar og myndir segja meira en orð. Mér finnst skórinn mjög töff. Sérstaklega hliðlæg hliðin. Dynafit nafnið kemur þar fram stórum stöfum. Fleiri merki gera þetta og mér finnst það koma vel út. Það ýtir undir djarft útlit skóarins. Til að undirstrika djarfleikann enn frekar, minnir grófur botn og hælstyrkingar á tennur…já eða klær snjóhlébarðans. Það er helst ofan frá að mér finnst aðeins of mikið vera í gangi og það gefur skónum þungt útlit. 

Vörn
Feline er með sveigjanegt plastefni á hliðum og aðeins efst á framfæti er efni sem andar. Auk þess er gúmmi yfir tám ef fólk skyldi reka tærnar í grjót. Skórnir ættu því að endast og verja fótinn vel. Á móti kemur að þeir losa ekki vatn sérstaklega vel. Þeir drena alveg en ekki eins fljótt og skór sem eru með minna plast/gúmmí efni. Þó það verndi ef fólk rekur tærnar í grjót, finnst mér ofaukið að hafa gúmmíið yfir tær þar sem getur ollið eymslum í tám, sérstaklega þegar hlaupið er niður fjöll. Ég vil frekar hætta á að meiða mig meira ef ég rek tánna í stein en að hafa hálf stíft efni yfir tær. Sjálfsagt er þessi vörn þó kærkomin fyrir suma en hafa ber í huga að velja frekar stærri stærð en minni af þessum ástæðum. Ekki síst þar sem stærðir eru auk þess frekar litlar  Feline eru með stífa hælkappa. Það eykur stöðugleika en sjálfur finnst mér betra að hafa hann sveigjanlegan. Ég er með frekar háan iljarboga og að stífir hælkappar valda oft skafsárum á hæl hjá mér, sérstaklega upp á móti í bröttu fjallslendi. Hvorki stífir hælkappar né gúmmivörnin yfir tær ullu mér þó vandræðum á stígum og þurfti ég ekkert að hlaupa skóinn til. Stóra prófið var bratt fjalllendi. Upp á við þrýstist hællinn aftur og niður á við færast tærnar fram. Það var engin roði eða skafsár en ég fann þrýsting á hælana þegar farið var upp t.d. brattasta hluta Esjunar. Það gerist hjá mér í öllum skóm með stífum hælköppum og sem slíkur stóðst Feline prófið. Tærnar voru í góðu lagi á meðan ég reimaði skóna þétt á niðurleið. 

Engin varnarplata er í sólanum og er það vel. Það myndi stífa skóinn og minnka flæðið í fótrúllunni. Grófur sóli og nokkuð þykkur miðsólin veitir nægilega vörn án þess að fórna allri jarðtengingu. Ég gat hlaupið á beittu grjóti án þess að það truflaði mig.

Breytingar tillögur
Lengi má gera góðan skó betri. Þó ég kjósi almennt skó með sveigjanlegum hælkappa, myndi ég ekki breyti því á Feline. Það, ásamt hælbandinu, gefur stýringu og stöðugleika sem nýtist sérstaklega vel í niðurhlaupum í fjalllendi og eitt af sérkennum Dynafit Feline. Ég myndi þó minnka gúmmið á tánni þannig að það sé aðeins framan á tám, ekki yfir tám. Einnig myndi ég minnka plastefnið til að skórnir dreni betur, jafnvel þó það sé á kostnað endingar.

Að lokum myndi ég nota hefðbundnar reimar í stað hraðreima til að geta betur stjórnað þéttleikanum á mismunandi stöðum. Kostir hraðreima eru augljósir en gallinn er að það er erfiðara að stýra þeim þannig að þeir séu þéttir efst en gefa meira eftir neðar. Hraðreimar eru því gjarnan of þéttir eða of lausir. Við flestar aðstæður fannst mér þetta ekki hafa nein áhrif en í bröttu fjalllendi skiptir það máli, sérstaklega þar sem tærnar eru hálfstífaðar með gúmmíi. Ég leysti það með því að hafa reimana lausari upp í móti en þétta þær verulega áður en niður var farið.

 

Niðurstaða
Dynafit hefur tekist að hanna fjölhæfan og vandaðan náttúruhlaupaskó með eigin persónuleika. Dynafit Feline SL er skemmtilegur skór með góðu flæði. Góð dempun, vörn og stöðugleiki er miðaðað við léttleika skóarins og frábært grip, sérstaklega í lausri möl/grjóti. Skórnir henta breiðum hópi fólks, fjölbreyttum aðstæðum og öllum vegalengdum. Þeir njóta sín þó best í millilöngum til löngum vegalengdum. Byrjendur jafnt sem sem vanir hlauparar ættu að finna sig í þessum skó.

Sterkar hliðar:
★ Fjölhæfur miðsólidempun sem dugar í allar vegalendir (nýtur sínn þó best í millilöngum til löngum vegalengdum)
★ Gott grip, sérstaklega í lausri möl/gróti í niðurhlaupum
★ Góður stöðugleiki sem kemur ekki niður á eðlilegri fótrúllu.
★ Vandaðir, líklegir til að endast vel.

Veikar hliðar:
★ Losa vatn frekar illa (eftir ár til dæmis).

Skoða Dynafit hlaupaskóna í vefverslun -->>  Dynafit hlaupaskór